Fyrstu skrefin í námi

 

Hvort sem þú ert að stíga þín fyrstu skref í háskólanámi eða að koma til okkar í fyrsta sinn frá öðrum háskóla er margt sem huga þarf að. Ef þú hefur ekki þegar úthlutað þér notendanafni og lykilorði skaltu byrja á því áður en lengra er haldið: 

Notandanafn og lykilorð

 

Á heimasíðu Háskólans er að finna ýmsar upplýsingar fyrir nýnema sem gott er að kynna sér en hér stiklum við á stóru yfir helstu atriðin.

  • Mikilvægt er að fylgjast með tölvupóstinum þínum, en með notandanafninu þínu fylgir netfang og þangað færðu allar tilkynningar frá skólanum. 
  • Í upphafi háskólaársins á haustin eru haldnir nýnemadagar og fræðasvið háskólans bjóða upp á sérstakar nýnemakynningar fyrir sína nemendur. 
  • Drög að stundatöflum er að finna á heimasíðu háskólans en þína persónulega stundatöflu geturðu nálgast í þinni Uglu í upphafi misseris. 
  • Upplýsingar um námskeið frá kennurum og kennsluáætlanir færðu svo inn á kennsluvef Canvas, en hann finnurðu með því að smella á námskeiðið í þinni Uglu.
  • Fyrstu dagana á hverju misseri getur þú breytt námskeiðaskráningu þinni á Uglu og þú skalt kynna þér mikilvægar dagsetningar í kennslualmanaki HÍ.
  • Í Bóksölu stúdenta finnur þú meðal annars bókalista fyrir þína námsleið og getur keypt bækur og háskólavörur.
  • Á heimasíðu Stúdentaráðs er að finna lista yfir öll nemendafélög sem nemendur geta skráð sig í og einnig hagnýtar upplýsingar um réttindi nemenda.

 

Á stundatöflu er kennslustofa táknuð með skammstöfun byggingar og númeri þeirrar stofu þar sem námskeið er kennt. Upplýsingar um byggingar háskólans er að finna á heimasíðu HÍ, en þar geturðu séð ekki aðeins staðsetningu byggingar á korti heldur einnig yfirlitsmynd af byggingunni sjálfri sem sýnir staðsetningu hverrar stofu.

Nemendur geta valið námskeið um leið og sótt er um nám, en einnig breytt og/eða bætt við námskeiðum í upphafi hvers misseris. Valmöguleikinn til að skrá sig í og úr námskeiðum er virkur í þinni Uglu og birtist sem borði efst á forsíðunni. Frestur til að skrá sig í námskeið er til 10. september á haustmisseri og til 21. janúar á vormisseri. Athugaðu að það getur tekið upp í sólarhring fyrir stundatöfluna þína að uppfærast þegar þú breytir námskeiðaskráningunni þinni.

Ástæður geta verið ýmsar:

  1. Þú ert að horfa á vitlausa viku. Stundataflan í Uglu sýnir aðeins eina viku í senn og þegar kennsla er ekki hafin þarftu að fletta áfram í tíma.
  2. Þú átt enn eftir að skrá þig á námskeið, eða skráning nýlega vistuð. Það getur tekið allt að sólarhring fyrir breytingar að birtast í stundatöflu.
  3. Það er einfaldlega ekki búið að birta stundatöflur í Uglu, þá þarftu að fara á heimasíðu HÍ til að skoða drög að stundatöflum deilda og fræðasviða.